Verður Sundabraut loks að veruleika

Birtist í Mosfellingi 11. febrúar 2021

Sundabraut er framkvæmd sem rifist hefur verið um í áratugi, hún rataði fyrst inn í aðalskipulag Reykjavíkur árið 1975.
Síðan þá hafa óteljandi nefndir verið skipaðar og skýrslur skrifaðar. Nýjasta nefndin skilaði nýverið af sér og leggur til að lagðar verði brýr í stað jarðganga. Hvort sem Sundabraut verður brú eða göng – vona ég að hún verði að veruleika á næsta áratugi.

Sundabraut er mikilvæg bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og ekki síður landsbyggðina. Hún sparar akstur og þungaflutninga og mun þannig spara kolefnisútblástur. Sundabraut er mikilvæg tenging við gatnakerfi höfuð­borgarsvæðisins. Með Sundabraut felst bætt tenging Grafarvogshverfis við gatnakerfi borgarinnar og töluvert myndi draga úr álagi um Ártúnsbrekku. Þá er mikilvægt út frá almannavarnasjónarmiðum að fjölga tengingum út úr borginni.
Sundabraut styttir vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bætir umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Þá léttir Sundabraut á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ. Þannig bætir Sundabraut tengingu milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og stuðlar að greiðari og öruggari umferð.

Einkaframkvæmd er eina lausnin
Kostnaður við Sundabraut er áætlaður á bilinu 70-80 milljarðar. Til samanburðar var allt nýframkvæmda- og viðhaldsfé Vegagerðarinnar á landinu öllu á 10 ára tímabili 2007-2017 á verðlagi ársins 2018 um 160 milljarðar, eða eins og tvær Sundabrautir. Fjárfestingar í vegum og samgöngumannvirkjum hafa sem betur fer aukist á síðustu árum, heildarframlög til Vegagerðarinnar hafa farið úr um 25 milljörðum í 30 milljarða, en þar eru bæði innviðir í flugi, siglingum og vegakerfið. Það er því algjörlega óraunhæft að ætla að hægt sé að taka 70-80 milljarða til að leggja Sundabraut úr ríkissjóði. Það myndi kalla á að ekkert annað yrði gert í viðhaldi eða uppbyggingu samgöngumannvirkja annars staðar á landinu, nú eða að fjármagn til þess málaflokks yrði tekið úr öðrum mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslu o.s.frv. Hér þarf einfaldlega aðrar lausnir.
Í mörg ár hefur verið bent á möguleika á samstarfsverkefni einkaaðila og hins opinbera, svokölluð PPP-verkefni, og eru Hvalfjarðargöng besta dæmið um slíkt hér á landi.

Ég, ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að Sundabraut verði boðin út í einkaframkvæmd.
Áhugasamir hópar geta þá komið með sína útfærslu af legu, aðferðafræði, hönnun, fjármögnun og rekstri. Viðkomandi hefðu heimild til að rukka veggjöld í ákveðinn tíma en að þeim tíma liðnum yrði mannvirkið ríkisins.

Ég er sannfærð um að þetta sé raunhæf leið til að sjá Sundabraut verða að veruleika. Þá spyrja sumir sig, hver á slíka fjármuni og er tilbúinn að verja þeim í slíka framkvæmd. Augljósasti kosturinn eru lífeyrissjóðirnir okkar, þeir eru einfaldlega fullir af peningum og stjórnendur þeirra eiga í mesta basli við að finna þeim peningum hlutverk, sérstaklega í lágvaxtaumhverfi dagsins í dag.
Maður myndi ætla að Sundabraut væri arðbær og álitlegur fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóði og atvinnulífið hefur án efa áhuga á að koma að þessu verkefni. Látum á það reyna og könnum hvort einkaframtakið hafi burði í að reisa Sundabraut. Framkvæmdina sem rifist hefur verið um í hátt í 50 ár. Við höfum engu að tapa en allt að vinna.

Previous
Previous

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Next
Next

Innviðir varða þjóðaröryggi