Þingstörf

Bryndís er þingmaður Suðvestur kjördæmis og hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2016. Bryndís er formaður allsherjar- og menntamálanefndar og situr í fjárlaganefnd auk þess er Bryndís formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og ritari þingflokks. Á síðasta kjörtímabili var Bryndís einn af varaforsetum þingsins, sat í efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd. Bryndís situr í Íslandsdeild ÖSE þingsins og gegnir þar hlutverki talsmanns norðurslóða. Bryndís hefur janfnframt setið í Íslandsdeild Vestnorrænaráðsins. Utanríkisráðherra fól Bryndísi að stýra þverpólitískri nefnd um endurskoðun Norðurslóðastefnu, en stefnan var svo samþykkt á Alþingi. Auk þess hefur Bryndís tekið að sér ýmis störf fyrir hönd þingflokksins. Hún hefur verið talsmaður barna á Alþingi, setið í Framtíðarnefnd og sat í nefnd um hagsæld og lífsgæði. Forsætisnefnd hefur skipað Bryndísi í undirnefndir; byggingarnefnd fyrir nýja viðbyggingu, jafnréttisnefnd svo og nefnd um ráðning skrifstofustjóra Alþingis og Umboðsmanns Alþingis.

 

Allsherjar og menntamálanefnd

Nefndin fjallar um dóms- og löggæslu­­mál, mannréttinda­­mál, ríkis­borgara­­rétt, neytenda­­mál, málefni þjóð­kirkjunnar og annarra trú­félaga og jafnréttis­mál, svo og um mennta- og menn­ingar­­mál og vísinda- og tækni­mál.

Fjárlaganefnd

Nefndin fjallar um fjár­mál ríkis­ins, fjár­veit­ingar, eignir ríkis­ins, láns­heimildir og ríkis­ábyrgðir og lífeyris­skuld­bindingar ríkis­sjóðs. Enn fremur skal nefndin annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Efnahags- og viðskiptanefnd

Nefndin fjallar um efna­­hags­­mál almennt, viðskipta­­­mál, þ.m.t. banka­­mál, fjármála­­­starfsemi og lífeyris­­­mál, svo og skatta- og tollamál. Mörg covidmála stjórnvalda fóru í gegnum nefndina, svo sem lokunarstyrkir, brúarlán, viðspyrnustyrkir ofl.


Utanríkismálanefnd

Nefndin fjallar um sam­skipti við erlend ríki og alþjóða­stofnanir, varnar- og öryggis­mál, útflutnings­verslun, mál­efni Evrópska efna­hags­svæðisins og þróunar­mál, svo og utanríkis- og alþjóða­mál almennt. Samkvæmt 24. gr. þingskapa skal utanríkis­mála­nefnd vera ríkis­stjórn­inni til ráðu­neytis um meiri háttar utanríkis­mál enda skal ríkis­stjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þing­tíma sem í þing­hléum.


Forsætisnefnd

Forsætisnefnd skipa forseti Alþingis og varaforsetar svo og áheyrnarfulltrúar frá þeim þingflokkum sem ekki hafa varaforseta. Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið, hefur umsjón með alþjóðasamstarfi, fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Auk þess fjallar nefndin um þau mál sem forseti leggur fyrir hana eða varaforsetar óska að ræða. Siðareglumál heyra undir forsætisnefnd en óhætt er að segja að þau mál hafi verið ofarlega á baugi á þessu þingi.

Framtíðarnefnd

Nefndin var skipuð af Forsætisráðherra og var ætlað að

  • Fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga, áhrif tækniframfara og hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu.

  • Fjalla um þróun þeirra meginstrauma sem koma til með að hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegum þáttum.

  • Stuðla að upplýstri umræðu um tækifæri og ógnanir framtíðarinnar og verði virkur umræðuvettvangur um framtíðarfræði.

Nefndin hefur staðið fyrir ráðstefnum og skilað af sér skýrslum en nú er ljóst að nefndin er komin til að vera og heyrir þá beint undir Alþingi.

Mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var ákveðið að unnið skyldi að mælikvörðum um hagsæld og lífsgæði. Slíkir mælikvarðar auðvelda stjórnvöldum að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu og styðja við stefnumótun og ákvarðanatöku. Alþjóðleg umræða hefur verið upp um að auka þurfi skilning á velsæld, velmegun og félagslegum framförum. Hugmyndin er að með skilvirkari söfnun, greiningu og framsetningu á gögnum sem mæla hagsæld og lífsgæði geti lönd tryggt og aukið velsæld allra í samfélaginu. Nefndin skilaði af sér tillögum að mælikvörðum sem nú eru nýttir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Norðurlandaráð

Norður­landa­ráð var stofnað árið 1952 og er samstarfs­vettvangur þjóðþinga á Norður­löndum. Sjálfstjórnar­svæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í sams­tarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norður­landa­ráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um samnorræn málefni. Auk þess heldur Norður­landaráð nefndafundi þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlanda­ráðs er unnið að margvíslegum sam­norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Auk Norður­landa­ráðs fer opinbert norrænt samstarf fram á vegum Norrænu ráðherra­nefndarinnar, sem er samstarf­svettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem veitt er til norrænnar samvinnu árlega. Undirstaða starfsemi Norðurlandaráðs er Helsingforssamningurinn frá 1962.

Markmið Norðurlanda­ráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherra­nefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Á þann hátt hafa ráðið og ráðherra­nefndin t.d. staðið að því að samræma ýmis réttindi Norðurlanda­þjóða með norrænum samningum, til að mynda Norðurlanda­samningnum um almanna­tryggingar. Ráðið og ráðherra­nefndin hafa einnig komið á norrænum nemendas­kiptum og reka ýmis verkefni og stofnanir á sviði menningar-, mennta- og rannsóknarmála, að ógleymdum tónlistar-, bókmennta-, umhverfis- og kvikmynda­verðlaunum Norður­landa­ráðs.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu

Öryggis- og sam­vinnu­stofnun Evrópu, starfar á grundvelli Helsinki­­sáttmálans frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi og sam­vinnu aðilda­r­landanna og standa vörð um virðingu fyrir mann­­réttindum.

Aðild að ÖSE-þinginu eiga þjóðþing 56 ríkja Evrópu, Norður­-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum og þar af á Alþingi Íslands þrjá fulltrúa. Hlutverk ÖSE-þingsins er m.a. að meta árangurinn af starfi ÖSE, ræða mál sem eru á dagskrá leiðtogafunda ÖSE og koma ályktunum þingsins á framfæri við þá, þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum.

Bryndís er fulltrúi Íslands í nefndinni sem fer með efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál. Þar hefur Bryndís lagt fram tillögur og talað um mikilvægi norðurslóða. Bryndís var skipuð af forseta þingsins sem sérstakur talsmaður norðurslóða.

Þá hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi og hefur sú starfsemi aukist mjög að umfangi síðustu ár í samvinnu við aðrar fjölþjóða­stofnanir. Bryndís fór í kosningareftirlit til Hvíta-Rússlands á vegum ÖSE en hún hefur bæði skrifað um þá upplifun sína og og rætt um þau mál í viðtölum.

Vestnorrænaráðið

Ráðið er þingmannavettvangur þjóðaþinga Íslands, Grænlands og Færeyja. Markmið ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafs­svæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og lands­stjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið innan norrænnar samvinnu og vera þing­ræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila innan Vestur-Norðurlanda og annarra fjöl­þjóðlegra hagsmuna­hópa og ríkjasamtaka. Vest­norræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningar­samstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt. Bryndís var forseti ráðsins 2016-2017.

Talsmenn barna á Alþingi

Að beiðni Barnaheilla, UNICEF og Umboðsmanns barna hefur Alþingi tilnefnt talsmenn barna. Talsmenn barna skuldbinda sig þannig til að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við störf sín. Fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF auk ráðgjafahóps umboðsmanns barna hafa staðið fyrir námskeiði fyrir talsmennina þar sem þeir kynntu þeim ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvernig hann má nota sem hagnýtt verkfæri við ákvarðanatöku og stefnumótun. Ungmennin lögðu áherslu á að réttindi barna yrðu höfð að leiðarljósi við allar ákvarðanir talsmannanna á þingi.

Norðurslóðastefna Íslands

Ísland hefur verið í formennsku í Norðurskautsráðinu síðastliðin tvö ár. Utanríkisráðherra ákvað að endurskoða skildi stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða á þeim tíma, en fyrri stefnan var orðin 10 ára gömul. Ráðherra fól Bryndísi Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, formennsku í nefndinni, en í nefndinni sátu einnig fulltrúar frá öllum stjórnmálflokkum á Alþingi. Nefndin skilaði af sér skýrslu og tillögum í byrjun þessa árs.

Tillögur nefndarinnar urðu svo að þingsályktun sem hlotið hefur samþykki á Alþingi.

Þróunarsamvinnunefnd

Bryndís er fulltrúi þingflokksins í þróunarsamvinnunefnd. Nefndin sinnir ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Nefndin skal m.a. fjalla um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi, framlög til þróunarsamvinnu, val á samstarfslöndum, þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu, sem og helstu skýrslur um árangur í þróunarsamvinnu.