Fortíð, framtíð - og dagurinn í dag
Birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2019
Sumum þykir betra að sjá fortíðina í hillingum og finna samtíðinni margt til foráttu. Sumir ala á ótta yfir því óvænta og ófyrirsjáanlega og líta á framtíða sem ógnun við óbreytt ástand. Sumir segja að allt hafi verið betra í gamla daga.
Við erum fljót að gleyma, ýmis vandamál samtíðar fortíðarinnar heyra sögunni til og gleymast í skugga nýrra vandamála samtíðar samtímans, vandamála nýrra tíma. Ákvarðanir teknar í fortíðinni skapa umhverfið sem við búum við í dag, og ákvarðanir dagsins í dag móta framtíðina.
Í gamla daga gengum við í EES-samstarfið, og í gamla daga samþykktum við að orkan heyrði undir samninginn. Í gamla daga samþykktum við orkupakka eitt og tvö, og var það íslensku samfélagi mikil blessun. Með raforkulögunum frá 2003 var innleitt nýtt skipulag raforkuviðskipta hér á landi, raforkuvinnsla og sala raforku var gefin frjáls og í dag keppa nokkur fyrirtæki á þeim markaði, og fer þeim fjölgandi.
Líkt og sagan dæmir verk og gjörðir fortíðarinnar, dæmir hún ákvarðanir og verk okkar sem störfum á vettvangi stjórnmálanna í dag. Meðal annars ákvarðanir sem við tökum um framtíðarskipan raforkumála á Íslandi og þátttöku Íslands í víðara samfélagi þjóða á vettvangi EES. Við sem sitjum í utanríkismálanefnd höfum á síðustu mánuðum fjallað ítarlega um þriðja orkupakkann. Við tókum á móti fjölda gesta, tugum umsagna og á málsmeðferð þriðja orkupakkans sér engin fordæmi meðal annarra EES-mála hérlendis. Hvorki sú mikla vinna sem átti sér stað innan ráðuneytanna né sú umfangsmikla vinna sem hefur átt sér stað innan Alþingis.
Utanríkisráðuneytið leitaði ráðgjafar færustu sérfræðinga landsins í Evrópurétti til að bregðast við efasemdaröddum. Hvort innleiðing þriðja orkupakkans í landsrétt brjóti í bága við íslenska stjórnarskrá, og telja sérfræðingarnir svo ekki vera. Hvort verið sé að afsala ákvörðunarvaldi íslenskra stjórnvalda yfir auðlindum landsins til Evrópusambandsins, og telja sérfræðingarnir svo ekki vera. Loks hvort innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér lagningu sæstrengs, og ekki telja sérfræðingarnir svo vera. Öllum steinum hefur verið velt við skoðun málsins. Innleiðing þriðja orkupakkans er ekki aðeins hættulaus, heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að samkeppni og jafnræði milli aðila.
Ekkert í þriðja orkupakkanum er af því tagi að þörf sé á að grípa til neyðarráðstafana á borð við að hafna honum og vísa aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Það er ástæðulaust að óttast framtíðina. Ég treysti Íslendingum dagsins í dag, og morgundagsins, til þess að stíga inn í hið óorðna með hugrekki og þor.