Vönduð málsmeðferð um þriðja orkupakkann
Birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2019
Við sem sitjum í utanríkismálanefnd höfum á síðustu vikum fjallað ítarlega um þriðja orkupakkann – þingsályktunartillögu um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og þannig staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um þriðja orkupakkann. Við fengum yfir 50 umsagnir frá fræðimönnum, félagasamtökum og einstaklingum en á annað hundrað umsagnarbeiðnir voru sendar út. Við tókum á móti fjölda gesta og voru fundir nefndarinnar opnir fjölmiðlum til að stuðla að sem bestri umræðu. Niðurstaða meirihluta nefndarinnar, sem samanstóð af öllum nefndarmönnum nema einum, var sú að þingsályktunartillagan yrði samþykkt.
Málsmeðferð þriðja orkupakkans á sér engin fordæmi meðal annarra EES-mála hérlendis hvorki sú mikla vinna sem átti sér stað innan ráðuneytanna né sú umfangsmikla vinna og umræða sem átt hefur sér stað innan þings. Öllum steinum hefur verið velt við skoðun málsins, en málið hefur verið í meðförum Alþingis frá árinu 2010. Innleiðing þriðja orkupakkans í íslenskan landsrétt, á þann hátt sem lagt er upp með, er ekki aðeins hættulaus, heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.
Efasemdaröddum svarað með rökum
Utanríkisráðherra Íslands tók sér heilt ár í samstarfi við ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar til að rannsaka málið af kostgæfni í ljósi þeirra efasemdaradda sem um málið heyrðist. Tekin var sú ákvörðun að taka allan þann tíma til þess sem þyrfti. Til að byrja með lutu efasemdirnar annars vegar að því hvort innleiðing þriðja orkupakkans í landsrétt bryti í bága við íslenska stjórnarskrá og hins vegar að því hvort í innleiðingunni fælist skylda til þess að leggja eða taka á móti sæstreng til flutnings á rafmagni til Evrópu.
Utanríkisráðuneytið leitaði ráðgjafar færustu sérfræðinga landsins í evrópurétti til þess að svara þessum spurningum og öðrum, en áður hafði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitað til tveggja sérfræðinga vegna álitamála tengdum þriðja orkupakkanum. Í stuttu máli var niðurstaða allra fimm álitsgerða sú að í innleiðingu þriðja orkupakkans fælist ekki skylda til lagningar eða móttöku sæstrengs. Niðurstaðan í öllum álitsgerðum utan einnar var sú að í innleiðingunni fælist heldur ekki stjórnskipunarvandi. Í einni álitsgerðinni, þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, var niðurstaðan af öðrum toga, þ.e. að innleiðing þriðja orkupakkans í landsrétt kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá. Þeir Stefán Már og Friðrik Árni lögðu því til lausn á því sem fælist í lagalegum fyrirvara, og er sú leið lögð til grundvallar í þingsályktunartillögunni. Þeir hafa síðan lýst því yfir að enginn lögfræðilegur vafi sé á því að sú leið sem farin er í tillögunni er í samræmi við stjórnarskrá.
En þá vandaðist málið. Efasemdarraddirnar þögnuðu ekki, þær ómuðu aðeins í aðrar áttir. Á þeim tíma sem liðinn er frá fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna hefur þar kennt ýmissa grasa. Flestum rangfærslum hefur verið svarað, en það hefur verið áskorun að koma réttum upplýsingum áleiðis til almennings til þess að svara stuttum slagorðum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
Í fyrri umræðu þingsins um málið fór mikið fyrir gagnrýni á það að ekki hefði verið aflað álits á hugsanlegum afleiðingum þess að hafna því að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samstarfsins. Í samræmi við þá djúpstæðu skoðun sem fram hefur farið á málinu og til þess að bregðast enn frekar við gagnrýni og efasemdum, leitaði utanríkisráðuneytið til fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, Carls Baudenbacher, um slíkt álit. Baudenbacher er Íslendingum kunnur, en hann var meðal annars forseti dómsins þegar dómstóllinn dæmdi Íslandi í vil í Icesave-málinu. Baudenbacher var í fyrra sæmdur íslensku fálkaorðunni fyrir störf hans að framkvæmd EES-samningsins. Í álitsgerð sinni komst Baudenbacher að þeirri niðurstöðu að þótt mögulegt væri að hafna upptöku nýrrar löggjafar ESB í EES-samninginn á lokastigum málsmeðferðar, væri þriðji orkupakkinn ekki mál af því tagi að réttlætanlegt væri að grípa til slíkra neyðarráðstafana. Að áliti hans gæti það teflt aðild Íslands að EES-samningnum í tvísýnu verði þriðja orkupakkanum hafnað. Skemmst er frá því að segja að andstæðingar innleiðingar þriðja orkupakkans gefa lítið fyrir álit hans og hafa gengið langt í því að tortryggja aðkomu hans að málinu.
Ekki vaða út í óvissuna
Ungt fólk úr ólíkustu áttum sameinaðist um birtingu heilsíðuauglýsingar í Fréttablaðinu í gær. Skilaboðin voru einföld; um mikilvægi EES-samstarfsins og áskorun til þingmanna um að tryggja að Ísland verði áfram frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag. Þessari áskorun tek ég fegins hendi. Mikilvægi EES-samningsins er ótvírætt og það er hagur íslenskrar þjóðar að samþykkja þriðja orkupakkann.