Blandað heilbrigðiskerfi besta leiðin

Birtist á Morgunblaðinu 5. júní 2021

Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki fyrir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Aftur á móti hefur flokkurinn talað fyrir mikilvægi þess að við virkjum einkaframtakið þar sem það nýtist betur. Að aðilar geti veitt heilbrigðisþjónustu utan opinberra stofnana. Blandað kerfi eins og öll löndin í kringum okkur hafa byggt upp og mörg hver hafa gengið mun lengra í því að heimila einkarekstur. Einkarekstur er ekki einkavæðing, heilbrigðisþjónustu á að kosta úr opinberum sjóðum. Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu af bestu gerð óháð efnahag en valfrelsi skiptir máli. Ég vil velja til hvaða læknis ég leita og hvaða heilsugæsla hentar mér. Ófrískar konur eiga rétt á því að velja sér sína ljósmóður og sína mæðravernd, fæðingaþjónustu og þjónustu í sængurlegu. Allt þetta á að greiða af hinu opinbera en full ástæða er til þess að sá sem þiggur þjónustuna hafi eitthvað um hana að segja. Í rauninni er mér sama hver rekur þjónustuna, aðalatriðið er að þjónustan sé góð, taki mið af þörfum þjónustuþega ekki þjónustu veitanda og að hagkvæmni sé gætt í rekstri. Ég held að við náum þessum markmiði best með blönduðu kerfi, kerfi þar sem framtakssamir einstaklingar, læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sálfræðingar o.sfrv. geta stofnað fyrirtæki og veitt þjónustu sína. Sjúkratryggingar kaupa síðan þjónustu af þessum aðilum uppfylli þeir öll gæðaskilyrði og kostnaðarviðmið. Heilbrigðisþjónusta er einn af mikilvægustu innviðunum í samfélaginu okkar, við verðum að standa vörð um gæði þessarar þjónustu. Á sama tíma vitum við að eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu fer bara vaxandi, þjóðin er að eldast, tækni og vísindum fleygir fram og fleiri sjúkdóma er hægt að meðhöndla með góðum árangri.

Heilbrigðistækni og lýðheilsa mikilvæg

Á Íslandi eru góð skilyrði fyrir vexti fyrirtækja á sviði heilbrigðistækni. Með öflugu og góðu heilbrigðis- og menntakerfi skapast tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki á sviði heilbrigðistækni. Við eigum fyrirtæki sem hafa náð mjög góðum árangri á þessu sviði og við eigum að byggja enn frekar undir þessi fyrirtæki og fleiri sprota sem verða til í þessum geira. Við eigum ávallt að standa á bak við öflugt vísinda og rannsóknastarf á sviði heilbrigðisþjónustu,- þannig tryggjum við sem besta þjónustu fyrir okkar íbúa og byggjum samtímis upp öflugan atvinnuveg.

Við vitum að lífstílssjúkdómar og hækkaður lífaldur veldur meiri álagi og eftirspurn á heilbrigðiskerfið okkar. Besta leiðin til þess að bregðast við þeirri auknu eftirspurn eru forvarnir og lýðheilsa. Verkefni sem lúta að því að fræða fólk um gildi holls mataræðis, mikilvægi hreyfingar og almennar geðræktar eru verkefni sem spara umtalsverða fjármuni fyrir ríkissjóð inn í framtíðina. Allar aðgerðir sem lúta að því að ýta undir og hvetja til hreyfingar og hollustu eru af hinu góða. Sundlaugarnar okkar, göngustígar, hjólreiðastígar, íþróttavellir, skíðasvæði, golfvellir og svo mætti lengi telja allt eru þetta mikilvægir innviðir sem spara ríkisútgjöld síðar meir.

Previous
Previous

Hvenær er ég gömul?

Next
Next

Starfs­vett­vangur barnanna okkar er ekki til í dag