Við erum ekki öll eins
Birtist í Morgunblaðinu 10. júní 2021
Þjóðin er að eldast og sífellt fleiri tilheyra hópi eldra fólks, en aldursbilið er breytt frá 65-100+. Augljóst er að þessi ört stækkandi hópur er ekki einsleitur. Það er því löngu tímabært að horfa til einstaklingsmiðaðrar þjónustu þar sem þarfir einstaklinganna eru misjafnar og á sama tíma þarf heildstæða nálgun á málefni eldra fólks. Þá er enn furðulegra að ennþá tölum við um málefni aldraðra eins og þeir séu einn hópur, en því fer auðvitað víðs fjarri.
Þjónusta við eldra fólk
Landssambandið hefur dreift til okkar alþingismanna 5 áhersluatriðum; Nr. 1 að eldra fólk fái að vinna eins og það vill; nr. 2 að starfslok miðist við færni en ekki aldur; nr. 3 að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustu; nr. 4 að millistig verði á milli heimilis og hjúkrunarheimilis og nr. 5 eru ein lög í stað margra lagabálka.
Það er að sjálfsögðu hægt að taka undir öll þessi áhersluatriði. Einfalda þarf flókið og sundurleitt lagaumhverfi í málefnum eldri borgara og gera það skilvirkara. Lágmarkslífeyrir skal aldrei vera lægri en umsamin lágmarkslaun á vinnumarkaði. Endurskoða ber reglur um starfslok. Sérstaklega er tiltekið að skilja þurfi að lög um eldra fólk og öryrkja og að tryggja þurfi aðkomu eldra fólks að endurskoðun laga. Réttlætismál sé að starfslok verði miðuð við áhuga, færni og getu en ekki eingöngu horft til aldurs.
Þegar horft er á þá þjónustu sem eldra fólki stendur til boða stingur í stúf að hluti af þjónustunni er á herðum sveitarfélaga en hluti hjá ríkinu. Þetta veldur því að flækjustigið er meira, einstaklingurinn fellur stundum á milli og átökin snúast um fjármagn milli ríkis og sveitarfélaga. Við verðum að hætta þessu rugli. Hér er í öllum tilfellum um skattfé okkar að ræða og algjörlega óásættanlegt að tvö stjórnsýslustig landsins eyði tíma orku og fjármunum í að takast á í stað þess að einblína á að bæta þjónustuna. Það er því eðlilegt að spyrja eftirfarandi spurningar: Eiga sveitarfélögin að taka yfir málefni aldraðra, eða á málaflokkurinn að vera á herðum ríkisins?