Netöryggi er þjóðaröryggi

Birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2020

Eftir Njál Trausta Friðbertsson og Bryndísi Haraldsdóttur: "Netógnin má ekki grafa undan undirstöðum lýðræðisþjóðfélaga eins og við sjáum ítrekað reynt af hálfu netþrjóta."

Fréttir utan úr heimi um netárásir á lykilstofnanir lýðræðisþjóðfélaga eru uggvekjandi og til marks um gjörbreyttan veruleika. Nýlegar árásir á tölvukerfi Lyfjastofnunar Evrópu í Haag í Hollandi og umfangsmiklar árásir í Bandaríkjunum sýna okkur, svo ekki verður um villst, hversu víðtæk ógn er af slíkum netárásum. Netárásin á Lyfjastofnun Evrópu var gerð á sama tíma og sérfræðingar stofnunarinnar skoðuðu hvort heimila beri notkun bóluefna sem þróuð hafa verið gegn kórónuveirunni. Það getur vart talist tilviljun, þarna eru eyðileggingaröfl að verki sem leggja mikið á sig til að ógna öryggi almennings.

Fyrir ári lögðum við ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi. Þar er m.a. tekið á netöryggi og helstu þáttum raforkukerfisins í tengslum við þjóðaröryggi. Nú styttist í útgáfu skýrslunnar en hún verður mjög efnismikil og hefur verið unnin á vettvangi allra ráðuneyta. Er það von okkar að skýrslan marki þáttaskil í netöryggismálum á Íslandi en sem samfélag getum við ekki leyft okkur annað en vera mjög vakandi yfir þeim þjóðfélagsmikilvægu hagsmunum sem þarna eru undir.

Innviðir og þjóðaröryggi

Í greinargerð með skýrslubeiðninni óskuðum við eftir að skilgreint verði nánar hvaða innviðir landsins teljist til grunninnviða samfélagsins, sbr. þjóðaröryggisstefnu, og teljast mikilvægir út frá þjóðaröryggi landsmanna, svo sem samgönguinnviðir, raforku- og fjarskiptakerfið. Orkumálin spila hér stóra rullu því samfélagið er mjög háð raforkuflutningskerfinu því oft getur lítil og staðbundin bilun valdið miklum óþægindum eða jafnvel erfiðleikum. Eftir því sem tækninni fleytir fram og sjálfvirknivæðing sem gengur fyrir rafmagni verður algengari má búast við að þetta verði æ mikilvægara viðfangsefni.

Við bentum á að íslensk löggjöf er skammt á veg komin í samanburði við nágrannalöndin, þar sem farið var að huga að þessum málum fyrir nokkrum áratugum. Í Svíþjóð er notað hugtakið „riksintresse“ yfir helstu grunninnviði sem tengjast landskipulagi sænska ríkisins. Þannig eru helstu innviðir landsins settir alfarið á forræði og ábyrgð ríkisins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna Svíþjóðar. Nú eru um 30 af 100 helstu flugvöllum Svíþjóðar skilgreindir sem „riksintresse“ þar sem skipulagsvaldið hefur verið fært frá viðkomandi sveitarfélagi yfir á æðra stjórnsýslustig vegna þjóðaröryggishagsmuna. Með sama hætti hafa tilteknir vegir, virkjanir, raforkuflutningar, lestarteinar o.s.frv verið skilgreindir sem slíkir út frá þjóðarhagsmunum. Að sama skapi þurfum við Íslendingar að skilgreina þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig má tryggja öryggi þjóðarinnar og jafnframt sameiginlegan skilning á því hvað felist í þjóðaröryggishugtakinu. Jafnframt þarf að endurmeta gefnar hugmyndir og sjónarmið í öryggismálum með það að markmiði að standa vörð um öryggi þjóðarinnar.

Norrænt samstarf í netöryggismálum

Í nýrri skýrslu Björns Bjarnasonar um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála er tekið sérstaklega á netöryggismálunum og rætt um mikilvægi samstarfs Norðurlandanna á sviði nýrrar tækni og varnir gegn netárásum. Þá þurfi Norðurlöndin að eiga samstarf við aðrar þjóðir í þessum efnum, ekki síst vegna tilkomu 5G-tækninnar. Netvarnir eru mikilvægar bæði í borgaralegu tilliti og vegna varnarhagsmuna þjóðanna. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð gagnvart almenningi. Ekki síst við upplýsingagjöf og fræðslu. Kemur fram í skýrslunni að norrænt samstarf geti styrkt hvert land fyrir sig í að bregðast við pólitískum og diplómatískum þrýstingi stórveldanna, sem getur verið misvísandi.

Við fögnum því að útgáfa skýrslu forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi er nú handan við hornið og teljum brýnt að í framhaldinu verði gefið í þá vinnu að tryggja varnir og öryggi þjóðarinnar út frá samfélagslegum innviðum, ekki síst netvörnum. Netógnin má ekki grafa undan undirstöðum lýðræðisþjóðfélaga eins og við sjáum ítrekað reynt af hálfu netþrjóta. Þar þarf hver þjóð að leggja sitt af mörkum svo unnt verði að verja sem best lykilstofnanir, almenning, sameiginleg gildi og hugsjónir.

Höfundar eru þingmenn. Njáll Trausti Friðbertsson er varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins. Bryndís Haraldsdóttir situr í utanríkismálanefnd.

Previous
Previous

Á ríkið að eiga banka eða selja banka?

Next
Next

Sundabraut í einkaframkvæmd