Mjúk lending, ferðaþjónusta í vörn

Birtist á Kjarnanum 3. júlí 2019

Eftir sögu­legt hag­vaxt­ar­skeið íslensku þjóð­ar­innar er hag­kerfið okkar að lenda og stóra áskor­unin er, eins og áskorun allra flug­stjóra, mjúk lend­ing. Allt virð­ist benda til þess að við séum að ná einmitt því, mjúkri lend­ingu. Óhætt er að segja að gjald­þrot WOW hafi ollið tölu­verðri hræðslu og ótta hjá mörg­um. Hvaða áhrif hefur það þegar stórt félag, sam­fé­lags­lega mik­il­vægt, fer í þrot? Starfs­menn missa vinnu sína og ruðn­ings­á­hrifin sem orðið geta. Hvað með öll hót­el­in, afþrey­ing­ar­fyr­ir­tæk­in, veit­inga­stað­ina, kaffi­hús­in, bíl­stjór­ana, lands­byggð­ina og svo mætti lengi telja? Nú er næsta öruggt að gjald­þrot WOW hefur áhrif á alla þessa aðila og fleiri til, spurn­ingin er samt hversu mikil áhrif og hvernig tekst þessum aðilum að snúa vörn í sókn.

Mikið hefur verið fjallað um sam­drátt í ferða­þjón­ustu og nýverið birt­ust upp­lýs­ingar um hagnað Bláa lóns­ins. For­stjór­inn sagði að fyrir mörgum árum hefði Bláa lónið breytt stefnu sinni og væri núna fyrst og fremst að vinna með að auka „virði“ hvers ferða­manns í stað þess að ein­blína á fjölda þeirra. En það er einmitt það sem Ísland á að gera og hefði kannski alltaf átt að leggja áherslu á í stað þess að kepp­ast við að fá sem flesta.

Kannski er það að takast núna en sam­kvæmt nýj­ustu grein­ingu Arion banka á ferða­þjón­ust­unni þá er íslenska ferða­þjón­ustan að vinna varn­ar­sig­ur. Þrátt fyrir miklar fréttir um ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæki í kröggum þá virð­ast tölur um korta­veltu benda til þess að ferða­mað­ur­inn eyði meira en áður og róð­ur­inn kannski ekki jafn þungur og margir ótt­uð­ust. Korta­velta eykst sem skýrist lík­lega af lengri dval­ar­tíma. Þannig dróst heild­ar­korta­velta erlendra ferða­manna aðeins saman um 0,7% í maí en ferða­mönnum fækk­aði um 23,6% á sama tíma.­Tölur apr­íl­mán­aðar benda til hins sama. Að því gefnu að þetta séu áreið­an­legar tölur virð­ist ferða­þjón­ustan vera að taka við sér og auka fram­boð sitt þannig að ferða­mað­ur­inn kýs að dvelja lengur og eða eyða meiru, sem er frá­bært.

Næsti ferða­maður sem syndir inn í land­helg­ina

Eftir banka­hrun er óhætt að segja að straumur fólks og nýrra fiski­teg­unda hafi hjálpað til við að ná þeim ótrú­lega árangri sem íslenskt atvinnu­líf og efna­hags­líf hefur upp­lifað á síð­ustu árum. Þarna á ég auð­vitað við fádæma vöxt í ferða­þjón­ustu og mak­ríl­veið­ar. Það er þó ekki svo að þetta hafi bara komið upp í hend­urnar á okk­ur. Heldur er sá ótrú­legi efna­hags­bati til kom­inn vegna þess að tæki­færin voru nýtt. Frum­kvöðla­kraftur Íslend­inga var þess vald­andi að fólk og fyr­ir­tæki gripu tæki­færin – stofn­uðu ný fyr­ir­tæki, veiddu nýja stofna, þró­uðu nýja þjón­ustu, byggðu ný hót­el, keyptu skip o.s.frv. Umhverfið var þannig að þetta var hægt, lög, reglur og stjórn­valds­að­gerðir ýttu undir mögu­leik­ana sem varð þess vald­andi að við upp­lifðum ein­stakt hag­vaxt­ar­skeið.

Tæki­færin eru víða, það er ein­stak­ling­anna að finna þau og nota en stjórn­valda að sjá til þess að það sé ger­legt, stuðla að og hjálpa til við að láta tæki­færin verða að auknum lífs­gæð­um. Sögu­lega hefur Ísland verið auð­linda­drifið hag­kerfi. Það er ekki alslæmt en á því verður ekki byggt til allrar fram­tíð­ar. Verk­efni næstu ára er að hvetja til og byggja upp hug­vits­drifið hag­kerfi. Eldri atvinnu­greinar okkar sem byggja á auð­lindum eiga að sjálf­sögðu að fá að blómstra áfram með áherslu á nýsköpun og sjálf­bæra auð­linda­nýt­ingu en vöxt­ur­inn þarf að vera í hug­vits­drifnum atvinnu­grein­um.

Fram­tíðin eða fram­tíð­irnar verða til með nýsköp­un.

Previous
Previous

Frelsið er yndislegt en það má alltaf gera betur

Next
Next

Plastið flutt til útlanda