Mikilvægi norðurslóða

Birtist í Morgunblaðinu 11. október 2017

Mikilvægi norðurslóða hefur farið mjög vaxandi samfara hlýnun loftlags og bráðnun hafíss. Mannfjöldaþróun og alþjóðavæðing hefur og mun í auknum mæli valda sókn inn á svæðið, auknir möguleikar til flutningsleiða og auðlindanýtingar verða til. Í sumar tók ég á móti þingmönnum frá Suður Kóreu og Japan. Þeir voru hér á ferðinni til að kynna sér stöðu mála á Íslandi og kynna sínar áherslur. Á báðum þessum fundum komu norðurslóðamál til umræðu og reyndar líka jafnréttismál. Tvær áherslur sem eru og eiga að vera leiðandi í utanríkisstefnu Íslands, því í þessum málaflokkum höfum við margt fram að færa. Ísland er aðili að Norðurskautsráðinu og tekur við formennsku þar árið 2019. Við höfum margt fram að færa á þessu sviði ekki síst í tengslum við málefni hafsins, endurnýjanlega orku, jafnréttismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Vestnorrænt samstarf



Vestnorræna ráðið, samstarf þjóðþinga Íslands, Grænlands og Færeyja hefur í auknum mæli lagt áherslu á norðurslóðamál og aukið umsvif sín í þeim málaflokki töluvert undanfarin ár, nú síðast með því að tryggja sér áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Þróunin á norðurslóðum er sérstaklega mikilvæg fyrir vestnorrænu löndin þrjú en 20% af landmassa norðurslóða tilheyra Vestur-Norðurlöndum og íbúar landanna eru um 10% af heildaríbúafjölda norðurslóða. Líklegt er að alþjóðleg þróun næstu áratugina komi til með að hafa mikil áhrif á Vestur-Norðurlönd, ekki síst hvað varðar alþjóðlega stöðu þeirra.

Á alþjóðlegum vettvangi hefur Vestnorræna ráðið ekki einungis lagt áherslu á vestnorræn málefni heldur einnig skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja til að vernda réttindi íbúa svæðisins og mikilvægi þess að draga úr ríkjandi lýðræðishalla þegar kemur að málefnum norðurslóða.

Hringborð norðurslóða



Þing Hringborðs norðurlóða, eða Arctic Circle Assembly, verður haldið í fimmta sinn í Hörpu 13.-15. október nk. Þingið er stærsti vettvangur um norðurslóðamál í heimi þar sem stjórnmálamenn, vísindamenn, frumbyggjasamtök, embættismenn, frumkvöðlar, aðgerðasinnar, fyrirtæki og stúdentar koma saman til að ræða framtíð norðurslóða.

Vestnorræna ráðið er samstarfsaðili Hringborðs norðurslóða og verður nú sem endranær þátttakandi í þinginu. Vestnorræna ráðið stendur fyrir málstofu á þinginu þar sem sjónum verður beint að hlutverki áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu og möguleika þeirra til áhrifa. Fulltrúar fjögurra áheyrnaraðila og sendiherra Íslands um málefni norðurslóða deila reynslu sinni og sýn á hlutverki áheyrnaraðila og möguleikum þeirra til áhrifa. Vestnorræna ráðið vonast eftir líflegum umræðum sem geta veitt mikilvægt innlegg í vinnu að mótun stefnu ráðsins gagnvart áheyrnaraðildinni.

Vestnorræna ráðið býður jafnframt þeim kjörnu fulltrúum sem sækja ráðstefnuna til hádegisfundar Þingmannanets um málefni norðurslóða, Arctic Parliamentary Network, sem ráðið setti á fót árið 2015 í samstarfi við Hringborð norðurslóða. Markmið Þingmannanetsins er að auka samstarf þjóðkjörinna fulltrúa um málefni norðurslóða og hvetja þá til að beita sér fyrir aukinni umræðu um hið mikilvæga hlutverk þjóðþinga og annarra lýðræðislega kjörinna vettvanga þegar kemur að stefnumótun á svæðinu.

Previous
Previous

Hvað er dánaraðstoð?

Next
Next

Vestnorræna ráðið