STÓRA MÁLIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 23. september 2019

Það er furðulegt til þess að hugsa að enn þá árið 2019 séu uppi efasemdir um þá náttúruvá sem stafar af loftslagsbreytingum af mannavöldum. Sem betur fer er stærstur hluti þingheims sannfærður um þessa staðreynd og staðráðinn í að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að hemja þessa vá.

Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmál og umhverfismál á oddinn. Enda ekkert vit í öðru en að Íslendingar sýni frumkvæði, áræðni og þor í þessum málaflokki. Auðvelt er að færa rök fyrir því að lítil þjóð, á eyju úti í miðju Atlantshafi, eigi allt sitt undir því að böndum verði komið á útblástur og hlýnun jarðar haldið í lágmarki. Á síðustu árum hafa neikvæð áhrif loftslagsbreytinga komið fram með ýmsum hætti hér á landi. Með súrnun hafsins, hækkandi yfirborði sjávar og hækkandi hitastigi sjávar verða vistkerfi og lífsviðurværi allra þeirra sem hafa afkomu sína af sjávarútvegi fyrir alvarlegum og óafturkræfum áhrifum. Áhrif loftslagsbreytinga sést líka í bráðnun jökla, jöklarnir sem eru í raun forðabúr okkar umhverfisvænu vatnsaflsorku. Öfgafullar veðurbreytingar sjást bæði hér og annars staðar í heiminum. Siglingaleiðir um norðurskautið eru að opnast með þeim tækifærum og ógnunum sem því fylgja.

Brýnt er að bregðast við þessari umhverfisógn með áhrifaríkum hætti. Bæði þurfum við að draga úr útblæstri og binda kolefni. Við þurfum líka að búa okkur undir þær breytingar sem eru óhjákvæmilegar. Ríkisstjórnin hefur sett metnaðarfull markmið og fylgir þeim eftir með raunhæfum verkefnum. Markmiðin byggja á Parísarsáttmálanum en ná lengra. Það er nauðsynlegt að ná þessum markmiðum og samstillt átak þjóða heims er nauðsynlegt, mengun á sér engin landamæri. Til að ná markmiðunum þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, samtaka og einstaklinga. Engin getur gert allt en öll getum við gert eitthvað.

Rýnum til gagns í stað þess að ala á ótta og efasemdum


Það er ekkert óeðlilegt við það að við rökræðum vægi mismunandi aðgerða en rökræða um hvort aðgerða sé þörf tilheyrir fortíðinni. Við eigum að rýna til gagns lausnir og forgangsröðun verkefna. Við eigum ekki að ala á ótta og sá efasemdum um mikilvægi verkefnisins. Gagnrýnin á ekki að verða þess valdandi að við gerum ekki neitt vegna þess að það er ekki hægt að sanna með óyggjandi hætti nákvæmlega hvað viðkomandi aðgerð leggur af mörkum. Við þurfum einfaldlega að beita mörgum mismunandi aðgerðum.

Þrátt fyrir ógnina sem loftslagsváin veldur er ástæða til að vera bjartsýn á framtíðina. Það er engin þörf á heimsendaspá, þær hafa verið nokkrar í gegnum mannkynssöguna en hér erum við enn. Nýtum vísindi og þekkingu dagsins í dag, sem aldrei hefur verið meiri, til góðra verka. Hugvit mannsins á sér engin takmörk. Virkjum þetta hugvit umhverfinu og samfélaginu til góða. Stjórnvöldum ber að styðja við rannsóknir, nýsköpun og tækniyfirfærslu á sviði umhverfismála. Nýtum þann vettvang til að finna nýjar lausnir til að takast á við breytta tíma, með sjálfbærni að leiðarljósi. Nýtum þetta mikla sóknarfæri.

Previous
Previous

EES samningurinn 25 ára

Next
Next

Þarf ríkið að selja Landsvirkjun?