Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum þrátt fyrir skilnað
Birtist á Kjarnanum 18. febrúar 2019
Kjarnafjölskyldan var einu sinni karl, kona, þrjú börn og hundur en getur í dag verið allskonar. Það geta verið karl, karl, barn/börn, hundur og köttur, þið skiljið hvert ég er að fara. Fjölskyldur eru allskonar og í vaxandi mæli búa börn á tveimur heimilum. Enda er það svo að kerfið okkar gerir ráð fyrir að foreldrar fari sameignlega með forsjá barna sinna eftir skilnað nema annað sé ákveðið.
Í sameiginlegri forsjá eiga foreldrar að hafa samráð um allar meiriháttar ákvarðanir er varða barnið. Eðlilega því skylda foreldra hverfur ekki við skilnað. Þá er gert ráð fyrir að foreldra sammælist um lögheimili barnsins. Það er þáttur sem vissulega veldur oft vandkvæðum og árekstrum foreldranna á milli enda óteljandi réttindi og skyldur tengdar lögheimili, tvöfalt lögheimili væri efni í heila ef ekki nokkrar greinar. En það ekki það sem ég ætla að fjalla um hér. Heldur hvaða upplýsingar fá forræðisforeldrar um börn sín og hvernig geta þeir sinnt skyldu sinni sem foreldri sé barnið ekki með lögheimili hjá þeim.
Réttindi og skyldur foreldra eftir skilnað
Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum þrátt fyrir skilnað. Það hlýtur að vera eðlilegt að báðir forsjárforeldrar hafi aðgengi að upplýsingum um barn sitt og geti fylgt eftir ýmiss konar þjónustu er barnið varðar t.d að stofna bankareikning, panta tíma hjá lækni, fá upplýsingar frá Sjúkratryggingum, kaupa tryggingar o.s.frv. En staðreyndin er sú að forsjáforeldri sem ekki er með lögheimili barns er gert mjög erfitt fyrir við að sinna slíkum verkum.
Ég hef vakið athygli á þessu í þingræðum, lagt fram fyrirspurnir og óskað eftir sérstakri umræðu um málið. Í svari heilbrigðisráðherra til mín (þingskjal 819/149) kemur í ljós að með framkvæmd sinni brjóta Sjúkratryggingar Íslands á persónuvernd barna í einhverjum tilfellum. Þrátt fyrir að Persónuvernd hafi gert athugasemdir við framkvæmdina og komið með tillögu að lausn.
Leyfið mér að útskýra út á hvað þetta gengur.
Ég spurði hverjir fengju bréf þegar um væri að ræða málefni barna og hvort þau væru stíluð á báða forráðamenn eða eingöngu á lögheimili barnsins og þá hvern. Svar ráðherra byggir á upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands en þeir notast við gagnagrunn Þjóðskrár og þegar verið er að senda út upplýsingar vegna barns er ekki sent á báða forráðamenn barnsins heldur er sent á fjölskyldunúmer barnsins en það ræðast af elsta einstakling fjölskyldunnar sem skilgreind er á lögheimili barnsins. Þannig er ekki einu sinni víst að annar forráðamaður barnsins fái bréfið ef foreldrið er í sambúð eða gift eldri einstakling. Í slíkum tilfellum berst tilkynning fósturforeldri sem ekki hefur forræði yfir barninu.
Ráðuneytið hefur nú í kjölfar fyrirspurnar minnar áréttað athugasemdirnar við Sjúkratryggingar Íslands. En ég hygg að vandamálið sé kerfislægt og liggi víðar en hjá Sjúkratryggingum.
Kerfin eiga að vinna með og fyrir okkur
Núverandi þjóðskrárkerfi var tekið í notkun árið 1986 en með því eru einstaklingar tengdir saman í þjóðskrá með svokölluðu fjölskyldunúmeri. Á heimasíðu Þjóðskrár segir m.a „Fjölskyldunúmerið hefur verið notað á margvíslegan hátt í gegnum tíðina, t.d. við tölfræðiúrvinnslu hjá Hagstofu Íslands og í tengslum við skatta- og almannatryggingamál.
Fjölskyldunúmerið þjónar enn í dag þeim tilgangi sem því var upphaflega ætlað þ.e. að vera samtenging á milli einstaklinga á lögheimili, en því var aldrei ætlað að veita upplýsingar um hverjir væru foreldrar barns né hverjir fara með forsjá þess.“ Hvaða kerfi á þá að veita slíkar upplýsingar?
Þjóðskrá hlýtur að fá ítrekaðar spurningar og kvartanir vegna mála af þessu tagi enda er fjölskyldunúmerakerfinu lýst sérstaklega á heimasíðu stofnunnarinnar með dæmisögu um Jón og Gunnu. Þar eru líka spurningar og svör við t.d. af hverju er ég ekki skráð sem foreldri barns míns í þjóðskrá? Af hverju sjá opinberar stofnanir og t.d. bankar ekki að ég fer með forsjá barns míns? Og af hverju fær stjúpforeldri markpóst og tilkynningar um barn mitt en ekki ég sem er foreldri og fer með forsjá? Svörin eru öll á þá leið að kerfið notist við fjölskyldunúmer og að kerfið skrái vensl á milli einstaklinga með takmörkuðum hætti og taki t.a.m. ekki til fjölskyldu- og skyldleikatengsla né veiti upplýsingar um forsjá barna.
Lausnin er að hægt sé að sækja um vottorð hjá Þjóðskrá um að þú sért í raun móðir eða faðir barns og farir með forsjá og svo skaltu gjöra svo vel og hafa á þér vottorðið og mæta með það í bankaútibúið, nú eða bara þegar þú þarft að sanna það að þú eigir nú eitthvað í þessu barni og berir skyldu til að sinna því.
Kerfin eru ekki til fyrir kerfið sjálft heldur okkur. Kerfið á að vinna með og fyrir fjölskyldur í landinu. Stór hluti fjölskyldna eru nú samsettar og stórhluti barna býr í raun á tveimur heimilum. Þrátt fyrir að margir telji að lausnin á þessum vanda sé tvöföld lögheimilis skráning þá fylgja því ýmis vandamál sem við höfum enn ekki náð að leysa. En hversu erfitt getur verið fyrir Þjóðskrá að halda utan um hverjir hafi forræði yfir börnum og að miðla þeim upplýsingum eins og öðrum upplýsingum sem Þjóðskrá miðlar?