Gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag
Birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar 2019
Á Íslandi þrífst öflugt atvinnulíf, en hvernig tryggjum við að svo verði áfram? Hvernig tryggjum við aukinn fjölbreytileika íslensks atvinnulífs?
Ég trúi því að það gerum við með markvissum aðgerðum er lúta að því að auka rannsóknir, þekkingaröflun, nýsköpun og tækniyfirfærslu. Með því aukum við framleiðni á öllum sviðum atvinnulífsins, tryggjum fjölbreytileika og byggjum fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf og velferðarsamfélag. Slíkar aðgerðir þurfa að mínu viti að vera samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs og menntakerfis. Stjórnvöld þurfa að tryggja skýrt og stöðugt starfsumhverfi, huga þarf að hvötum til rannsókna og nýsköpunar eins og gert hefur verið með endurgreiðslum og skattaafslætti við fjárfestingu í nýsköpunarfélögum. Einnig þarf að huga að stuðningsumhverfi nýsköpunar með ráðgjöf, upplýsingum og styrkjum og svo þarf að byggja undir framtaksfjármögnun. Menntakerfið þarf að skila af sér hæfileikaríku og vel menntuðu fólki, með þekkingu og hæfni sem atvinnulífið þarf á að halda. Þá má ekki gleyma mikilvægi frumrannsókna hjá háskólum og rannsóknastofnunum. Atvinnulífið þarf að huga að auknu samstarfi, því þrátt fyrir samkeppni geta fyrirtæki unnið saman að stærri verkefnum eins og rannsókna- og þróunarverkefnum og þannig bætt samkeppnishæfni sína á alþjóðavísu. Gott dæmi um slíkt má sjá í t.d. sjávarútvegs-, ál- og jarðhitaklösunum. Atvinnulífið þarf að sýna metnað í samfélagslegri nýsköpun þar sem hugað er að hagsmunum samfélagsins og þar með fyrirtækisins til lengri tíma litið. Hvernig náum við heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvað þarf atvinnulífið að leggja af mörkum? Atvinnulífið þarf að finna tækifærin sem felast í því að vinna að heimsmarkmiðunum.
Ísland er eyja en ekki eyland
Þrátt fyrir að Ísland sé eyja þá verður íslenskt atvinnulíf ekki eyland og þaðan af síður nýsköpun, rannsóknir, þróun og fjármögnun þess. Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að hafa góðan aðgang að stærri mörkuðum bæði þegar kemur að því að selja afurðir sínar en einnig þegar kemur að rannsóknar- og þróunarsamstarfi svo og fjármögnun nýsköpunarverkefna. Stjórnvöld þurfa að tryggja að þessi aðgangur sé til staðar t.d. í gegnum EES samninginn en einnig með fríverslunarsamningum og samstarfi við aðra heimshluta. Ísrael er dæmi um ríki sem kemur vel út þegar horft er til nýsköpunar og hefur ísraelska ríkið unnið markvisst að uppbyggingu framtakssjóða og ýtt undir samstarf atvinnulífs og hins opinbera þegar kemur að fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja.
Fjölbreyttar stoðir atvinnulífs
Sjávarútvegurinn er dæmi um atvinnugrein sem hefur staðið sig mjög vel í nýsköpun. Hráefnisnýting hefur aukist til muna og framleiðni er góð, enda er íslenskur sjávarútvegur í fremstu röð á heimsvísu, jafnt hvað varðar gæði, sjálfbærni, þróun og arðsemi. Í kringum sjávarútveginn hefur spunnist fjöldi fyrirtækja og viðskiptahugmynda sem ganga út á að fullnýta afurðir, t.d. í tísku-, lyfja- og heilsuiðnaðinum.
Á þessari velgengni eigum við að byggja og Ísland hefur alla burði til að verða einhverskonar sílikondalur sjávarútvegs og tengdra fyrirtækja í heiminum.
Til framtíðar þurfum við að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulíf, efnahagur okkar má aldrei ráðast af afkomu eins fyrirtækis eða einnar atvinnugreinar. Þess vegna er nauðsynlegt að unnin sé nýsköpunarstefna sem byggi undir öfluga nýsköpun á mörgum sviðum.
Nauðsynlegt er að horfa til greina sem ekki nýta náttúruauðlindir heldur greinar sem fyrst og fremst byggja á hinu óþrjótandi hugarafli. Það geta verið tölvuleikir, líftækni, örtækni, hönnun eða eitthvað allt annað, jafnvel eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug í í dag. Við skulum muna að stærstu fyrirtæki heims voru vart til fyrir 10 árum. Fjórða iðnbyltingin er í fullu fjöri og við Íslendingar eigum og ætlum að vera með í því fjöri.
Seinna í dag ræði ég nýsköpun og mikilvægi hennar fyrir samfélagið allt við ráðherra nýsköpunarmála Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur á Alþingi. Ég vona að sú umræða veki upp en frekari umræðu og vangaveltur á Alþingi, í atvinnulífinu, menntalífinu og samfélaginu öllu. Því í þessu máli er engin stikkfrí.