Norðurslóðir: Tækifæri og ógnanir

Birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2021

Vísbendingar um alvarleika loftslagsbreytinga á heimsvísu eru ekki nýjar af nálinni en sem betur fer er þeim nú tekið alvarlega. Kastljósið beinist ekki síst að þeirri miklu ógn sem steðjar að norðurslóðum vegna hlýnunar. Hvergi eru ummerki loftslagsbreytinga jafn sýnileg og á Norðurslóðum þar sem jöklar hopa, hafísinn minkar sem aldrei fyrr og sífrerar þiðna. Þetta veldur hækkun á sjávarhita og lofthitinn hækkar tvöfalt hraðar en annars staðar. En það sem gerist á Norðurslóðum á ekki bara erindi við okkur sem þar búum heldur hefur hlýnunin áhrif um allan heim, t.d. með hækkun sjávarstöðu. Þess vegna hafa öll helstu ríki heims myndað sér stefnu í málefnum Norðurslóða, líka fjarlæg ríki í Asíu.

Það að sporna við loftlagsbreytingum er eitt brýnasta verkefni norðurskautsríkjanna og það kallar auðvitað á alþjóðlegt samstarf, enda er loftslagsváin áskorun án landamæra. En það er ekki nóg að sporna við loftlagsbreytingum því við þurfum líka að búa okkur undir þær breytingar sem hafa orðið og munu verða. Innviðir okkar þurfa að þola aukið álag með miklum og örum veðurbreytingum. Með minnkun sífrera aukast t.d. líkur á aurflóðum og þurfa vegir, raflagnir og aðrar veitur að þola aukið álag.

Hver eru tækifærin?

Við megum þó ekki gleyma að í ógnum felast líka tækifæri.. Með minnkandi hafís í Norðurhöfum hafa væntingar skapast um opnun siglingaleiða og aðgengi að ýmsum auðlindum. Erfitt er að spá fyrir um hversu hratt og að hvaða marki slíkar væntingar eiga eftir að raungerast, en ljóst er að þessi þróun felur í sér bæði möguleika og sjálfstæðar áskoranir. Fyrir Ísland geta margvísleg tækifæri legið m.a. í siglingum flutningaskipa í Norðurhöfum, þjónustu við auðlindavinnslu og uppbyggingu ferðaþjónustu. Hvort sem horft sé til risastórrar umskipunarhafnar í Finnafirði eða minni þjónustu við siglingaraðila og öryggi á siglingaleiðum. Þá skiptir miklu fyrir Ísland að gaumgæfa slík tækifæri og gæta vel hagsmuna sem af þeim skapast. Umhverfisvernd og sjálfbærni þarf ávallt að vera okkar leiðarljós í slíkri atvinnuuppbyggingu, við eigum jú alltaf allt okkar undir hafinu sem umlykur okkur.

Líklegast eru stærstu tækifærin þó fólgin í hagnýtingu þekkingar og virkjun hugvits. Rannsóknir, tækniyfirfærsla og nýsköpun tengt norðurslóðarmálum og hringrásarhagkerfinu ætti að verða okkar næsta stóriðja.

Previous
Previous

Aðeins 17% fór til höfuðborgarsvæðisins

Next
Next

Norðurslóðir og þekkingareyjan Ísland