Atvinnulíf - undirstaða öflugs samfélags

Birtist í Morgunblaðinu 8. september 2016

Stjórnvöld eiga að búa öllum atvinnugreinum skýrt og stöðugt starfsumhverfi til langs tíma. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og stuðla að fjárfestingum og eðlilegri samkeppni.   Ráðdeild og ábyrgur rekstur í fjármálum ríkisins er megin forsenda stöðugleika.  Aðeins þannig geta vextir hér á landi lækkað, heimilum og atvinnulífinu til hagsbóta.  Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins. Innviðir samfélagsins skipta atvinnulífið miklu máli og brýnt að tryggja örugga uppbyggingu þeirra um land allt.


Ferðaþjónusta til framtíðar

Engum dylst að ferðaþjónustan er orðin einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs. Gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu námu um 370 milljörðum króna á árinu 2015 og á árinu 2017 stefnir í að gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar verði hærri en af sjávarútvegi og stóriðju til samans.  Það er því mikilvægt að við verndum þá upplifun sem ferðamenn eru að sækja í. Með því á ég við að huga verði að því að sumir ferðamannastaðir eru komnir að þolmörkum og nauðsynlegt að ráðast í viðeigandi uppbyggingu á þeim fjölförnustu. Við erum svo sannarlega komin af stað í þeirri uppbyggingu − en betur má ef duga skal.  Ég tel að við verðum líka að horfast í augu við það að sumir staðir þola ekki meiri ágang.  Bæði landsins vegna en ekki síst til að vernda upplifunina sem við erum í raun að bjóða ferðamönnum upp á. Takmörk eru fyrir því hvað staðirnir bera og þeirri spurning þarf að velta upp hvenær uppselt er á Gullfoss, Geysi, Þingvelli, Landmannalaugar eða aðra staði þar sem ásókn er mikil.  Góður fréttirnar eru þær að við erum svo rík af fallegri náttúru að vel er hægt að beina hluta af ferðamannastraumnum annað.

 

Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífins

Aukinn ferðamannastraumur býður upp á mikil tækifæri fyrir skapandi greinar.  Hönnun, listir og menning blómstrar.  Þó langflestir ferðamenn komi til að njóta náttúrunnar þá eru þeir líka margir sem sækja landið heim vegna áhuga á íslenskri sögu og menningu.  Tækifærin í upplifunariðnaðinum er mýmörg með tengingu við náttúru, menningu, listir og sögu. Ef okkur auðnast að grípa þessi tækifæri er hægt að skapa aukna hagsæld og efla velferð þjóðarinnar. Með því að virkja þekkingu og hugviti íslensku þjóðarinnar eru okkur allir vegir færir.

Previous
Previous

Borgarlína grundvöllur svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins

Next
Next

Bætt lýðheilsa-þjóðhagslega hagkvæmt.