Borgarlína grundvöllur svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins

Birtist í Morgunblaðinu 13. október 2016

Á síðustu dögum hefur verið talsvert rætt um framtíð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rætt er um mögulega létt lest (LRT= light rail transit) eða hágæða hraðvagnakerfi sem keyrir í sérrými (BRT= bus rapit transit). Sitt sýnist hverjum og margar spurningar vakna þegar verið er að velta fyrir innviðafjárfestingum sem þessum enda heypur kostnaðurinn á 40-100 milljörðum.

Ég hef í nokkur ár tekið þátt í þessari umræðu í tengslum við vinnu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040. Vinnan hófst 2012 og lauk með undirritun allra sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar um mitt ár 2015. Að baki svæðisskipulaginu liggur mikil fagleg og þverpólitísk vinna. Það byggir meðal annars á ítarlegu umhverfismati, mannfjöldaspám, sviðsmyndagreiningum, umferðamati og ferðavenjukönnunum.

Svæðisskipulagið er stefna sveitarfélaganna um uppbyggingu og þróun byggðar fram til ársins 2040. Á þessum tíma er gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 70 þúsund en það er svipaður fjöldi og í dag býr í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ til samans. Á árunum 1985-2012 fjölgaði höfuðborgarbúum um tæp 70 þúsund á þeim árum þandist höfuðborgarsvæðið út fórum úr 54 íbúum á hektara í 35 íbúa á hektara. Fólksbílar á svæðinu voru 1985 um 67.500 en voru árið 2012 um 125.500

Í nýju svæðisskipulagi var ákveðið að halda ekki áfram á sömu braut heldur er helsta markmið þess hagkvæmur vöxtur og skilvirkar samgöngur. Það þýðir að við ætlum að taka á móti þessum 70.000 nýju íbúum innan núverandi byggðamarka og við ætlum að mæta þessari fjölgun án þess að álag á stofnvegakerfið aukist í sama hlutfalli. Það kallar á breyttar ferðavenjur.

Breyttar ferðavenjur – almenningssamgöngur úr 4% í 12%

Markmið svæðisskipulagsins er að hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum innan svæðisins verði árið 2040 að minnsta kosti 12% en það var árið 2015 rúmlega 4%. Til að ná þessu markmiði ætla sveitarfélögin í samvinnu við ríkið að byggja upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, svokallaða Borgarlínu sem flytur fjölda fólks á milli helstu miðkjarna og valinna þróunarsvæða. Auk þess þarf að halda uppi öflugu strætisvagnakerfi sem aðlagað verður að hágæðakerfinu og myndar net um þéttbýli höfuðborgarsvæðisins.

Umræðan nú snýr að Borgarlínunni en sveitarfélögin er sammála um mikilvægi þess að unnið verði að markvissri þróun og uppbyggingu hennar. Hún þarf að hafa mikla flutningsgetu, hátt þjónustustig og vera óháð annarri umferð. Ég er þess fullviss að Borgarlínan sé mikilvægasta samgönguverkefni höfuðborgarsvæðisins á næstu árum. Í umferðaspá og útreikningum sem unnin var af VSÓ ráðgjöf fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að umferðartafir myndu aukast töluvert jafnvel þó ráðist yrði í framkvæmdir á stofnvegakerfi svæðisins fyrir um 100-120 milljarða króna.

Niðurstöðurnar sýna að breytingar á ferðavenjum hafa meira vægi en auknar framkvæmdir í því að draga úr umferðarálagi. Með breyttum ferðavenjum í samræmi við markmið skipulagsins þarf framkvæmdir fyrir um 25-30 milljarða í hefðbundna stofnvegakerfi svæðisins. Til samanburðar er gróft kostnaðarmat fyrir Borgarlínu (um 40 km) 40 -100 milljarðar eftir því hvort valin verði BRT leiðin eða LRT. Hér er því um nauðsynlega og þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða. Fyrir mig og aðra sveitarstjórnarmenn sem staðfestu svæðisskipulagið á sínum tíma er ekki spurning um hvort heldur eingöngu hvernig staðið verður að uppbyggingu Borgarlínunnar.

Previous
Previous

Samgöngur og framtíðin

Next
Next

Atvinnulíf - undirstaða öflugs samfélags