Samgöngur og framtíðin
Birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2016
Sem nýkjörin Alþingismaður er af ýmsu að taka í fyrstu grein minni sem slíkur. Ég gæti rætt um stjórnarmyndunarviðræður, úrskurð kjararáðs eða innflutning á ferskum nautalundum. Ég ætla ekki að fjalla um neitt af þessu heldur samgöngur og það samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarlína
Í síðustu viku sótti ég tvær áhugaverðar ráðstefnur sem fjölluðu um samgöngur og framtíðina. Önnur ráðstefnan var upphaf vinnufundar um Borgarlínu, haldin af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan er stórhluti af hugmyndafræði svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og snýst um að byggja upp hágæða almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan gæti verið hvort sem er léttlest eða strætisvagn en að öllu eða mestu leyti mun línan keyra í sérrými og þannig vera óháð annarri umferð. Ég hef alltaf sagt að það er ekki spurning um hvort heldur bara hvenær hún verða að veruleika. Uppbygging Borgarlínu er ekki bara skynsamleg heldur algjörlega nauðsynlegt til þess að höfuðborgarsvæðið geti haldið áfram að þróast. Allar skipulagsáætlanir sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu gera ráð fyrir Borgarlínu og er það orðið aðkallandi að hefja slíka uppbyggingu, enda eru umferðatafir á svæðinu orðnar töluverðar og munu einungis aukast ef ekki verður hafist handa við uppbyggingu Borgarlínu. Það er þjóðhagslega hagkvæmt enda kostar slík uppbygging minna og skilar meiru en að ráðast eingöngu í mjög dýrar framkvæmdir við stofnvegakerfi svæðisins með fjölgun akreina og fjölda mislægra gatnamóta. Þetta er niðurstaða umferðasérfræðinga og skipulagsfræðinga sem unnu fyrir þverpólitíska svæðisskipulagsnefnd. Enda ríkir um þetta mál pólitísk sátt meðal sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu.
Bílar, fólk og framtíðin
Hin ráðstefnan bar heitið Bílar, fólk og framtíðin, þar var fjallað um þær miklu tækniframfarir sem hafa orðið og munu verða á samgöngumálum og þá sérstaklega í tengslum við sjálfkeyrandi bíla. Fjallað var um vegakerfið okkar, lagaumhverfið og tækniþróunina og svarað spurningunni erum við tilbúin fyrir þessa framtíð. Óhætt er að segja að hér á landi er fylgst vel með þessari þróun og að mörgu er að huga.
Oft hef ég heyrt því fleygt fram, að tækniþróunin muni leysa af hólmi almenningssamgöngur og því ættum við að bíða með slíka uppbyggingu þar til tækninni reiði meira fram. En skoðun þeirra sem til þessara mála þekkja er að svo er ekki. Allar borgir sem við þekkjum í hinum vestræna heimi leggja áherslu á mikilvægi almenningsamgangna. Eins spennandi og sjálfkeyrandi bílar eru þá munu þeir ekki leysa af hólmi almenningsamgöngur. Tom Palmaerts framtíðarýnir var einn af þeim sem talaði á ráðstefnunni og gaman var að hlusta á hann tala um að almenningsamgöngur og hjólreiða séu og munu verða stór hluti af framtíðar samgöngukerfum. Í samanburði sínum á kynslóðunum bent hann á muninn á eldri kynslóðunum stundum nefndar „baby boomers“ og X- kynslóðinn sem gjarnan líta á bílinn sem stöðutákn. Yngri kynslóðir Y og Z kynslóðin líta fyrst og fremst á bíl sem faratæki til að komast á milli staða, þessar kynslóðir vilja hafa aðgang að slíku faratæki en þurfa ekki endilega að eiga bíl. Þær vilja líka hafa aðgang að góðum almenningssamgöngum og þær vilja hafa aðgang að hjóli. Fjölbreytni og valfrelsi í samgöngum skiptir þessar kynslóðir máli.
Fjölbreytni og valfrelsi í samgöngum
Með áherslu á öflugar almenningsamgöngur og góða og örugga hjólreiðastíga, aukum við fjölbreytni og frelsi í samgöngum. Það er gott og mikilvægt af svo mörgum ástæðum, það er þjóðhagslega hagkvæmt, umhverfisvænt og bætir lýðheilsu. Bættar almenningssamgöngur nýtast ekki bara þeim sem kjósa að nota þær heldur líka hinum sem kjósa einkabílinn, enda draga þær úr umferðatöfum. Það ætti því að vera auðvelt fyrir okkur öll að sameinast um mikilvægi Borgarlínu.