Gervigreind í lögfræði, frumkvöðlasjósund og handverksbrugghús
Birtist í Fréttablaðinu 27. maí 2021
Íslendingar eru öflug nýsköpunarþjóð eins og skýrt kemur fram í nýsköpunarvikunni sem nú stendur yfir. Sem dæmi um ólíka viðburði hátíðarinnar eru frumkvöðlasjósund, stafræn sýningarrými, umfjöllun um gervigreind í lögfræði, stofnfrumuræktað kjöt, samstarf hönnuða og hátækni og nýtingu þörunga og vetni og bjórhátíð handverksbrugghúsa. Nýsköpunarvikan er að venju samsett af spennandi viðburðum, fyrirlestrum og uppákomum tengdum nýsköpun og hugmyndaflugið á sér engin mörk. Nýsköpunarvikan er mér mjög hjartfólgin þar sem ég tók þátt í að stofna hana árið 2003, þá sem starfsmaður Impru, Nýsköpunarmiðstöðvar Iðntæknistofnunar. Þá var eftirfarandi vitnað í mig í Morgunblaðinu frá 28. september 2003 um tilgang nýsköpunarvikunnar:
"Helsti tilgangur nýsköpunarvikunnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar fyrir þjóðarbúið allt svo og fyrirtæki. Ástæða þess að við förum af stað með þennan viðburð nú er fyrst og fremst þau tækifæri sem fyrirtæki standa frammi fyrir í dag og möguleika þeirra á aðstoð og samstarfi við ólíka aðila."
Frá því þetta var ritað eru liðin 18 ár og ég brenn ennþá fyrir málaflokknum. Við erum enn á þeim stað að vilja læra að takast á við nýsköpunarumhverfið og höfum stöðugt verið að bæta aðgengi og aðstoð frá ólíkum aðilum.
Skýrt og stöðugt starfsumhverfi
Til þess að nýsköpunarumhverfið verði frjótt þurfa stjórnvöld að tryggja áframhaldandi skýrt og stöðugt starfsumhverfi, huga að hvötum til rannsókna og nýsköpunar eins og gert hefur verið með endurgreiðslum og skattaafslætti vegna fjárfestingar í nýsköpunarfélögum. Menntakerfið þarf einnig að skila af sér hæfileikaríku og vel menntuðu fólki, með þekkingu og hæfni sem atvinnulífið þarf á að halda. Auk þess þarf að huga að stuðningsumhverfi nýsköpunar með ráðgjöf, upplýsingum og styrkjum. Einnig þurfum við að byggja undir framtaksfjármögnun. Þá má ekki gleyma mikilvægi frumrannsókna hjá háskólum og rannsóknastofnunum. Með þessu öllu aukum við framleiðni á öllum sviðum atvinnulífsins, tryggjum fjölbreytileika og byggjum fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf og velferðarsamfélag.
Allir þramma í takt
Við þurfum að tryggja áframhaldandi aukin fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi og gerum það best með því að ganga í takt og styðja vel við nýsköpun; stjórnvöld, atvinnulíf og menntakerfi. Við þurfum áframhaldandi markvissar aðgerðir með auknum rannsóknum, víðtækri þekkingaröflun, markvissri nýsköpun og öflugri tækniyfirfærslu og tæknivæðingu. Sterkt nýsköpunarumhverfi með gott orðspor getur þannig laðað til okkar auknar fjárfestingar og því er mikilvægt að markaðsetja Ísland sem eina heild. Ísland hefur talsvert samkeppnisforskot þegar kemur að rannsóknum og þróun og því hentar áhersla á það skref í virðiskeðjunni vel fyrir langtímamarkmið um fjölbreytt atvinnulíf með hálaunastörfum. Til að þetta takist þarf stuðningur við þetta skref að vera skilvirkur og hluti af heildarframtíðarmynd um ábata.
Nýsköpun dagsins er hagvöxtur framtíðar
Nýsköpun dagsins í dag framleiðir hagvöxt komandi ára. Á Íslandi þrífst öflugt atvinnulíf og mikilvægt er að svo verði áfram. Það háir okkur þó enn að stoðir atvinnulífsins eru of fáar þó þeim hafi fjölgað. Leggja þarf ríka áherslu á hátækni-, upplýsinga- og upplifunariðnað og aðrar greinar sem ekki ganga á takmarkaðar náttúruauðlindir. Þróun á sviði líftækni er spennandi, sérstaklega í tengslum við hefðbundnar greinar eins og sjávarútveg og landbúnað. Í auðlindaatvinnugreinunum þarf líka að stunda nýsköpun sem felur í sér betri nýtingu á auðlindum og sjálfbærari vöxt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld standi að baki nýsköpunarfyrirtækjum og búi þeim hagfelld starfsskilyrði.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi býður sig fram í 2. sæti í komandi prófkjöri.