Samkeppnishæfni Íslands og samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
Birtist í Kópavogspóstinum 4. júní 2021
Unga fólkið okkar er ekki að velta fyrir sér hvort það muni búa í Reykjavík, Kópavogi eða Garðabæ heldur frekar hvort það muni búa á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Íslandi, Norðurlöndunum eða Ameríka. Eða hvar sem er því stærstur hluti heimsins er opin þeim sem vilja nýta tækifæri sín.
Þess vegna er Ísland í samkeppni við aðrar þjóðir og höfuðborgarsvæðið allt í jafn mikilli eða meiri samkeppni við Kaupmannahafnarsvæðið og það er í samkeppni innbyrðis. En hvert er svar okkar við þessari samkeppni, hvernig ætlum við að vinna hana og halda hér unga fólkinu okkar og lokka til landsins fólk sem vill vinna með okkur að því að gera samfélagið betra.
Fjölbreytt atvinnulíf
Til framtíðar þurfum við að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi, efnahagur okkar má aldrei ráðast af afkomu eins fyrirtækis eða einnar atvinnugreinar. Nauðsynlegt er að horfa í auknum mæli til greina sem ekki nýta náttúruauðlindir heldur greinar sem fyrst og fremst byggja á hinu óþrjótandi hugarafli. Það geta verið tölvuleikir, líftækni, örtækni, hönnun eða eitthvað allt annað, jafnvel eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur í dag. Við skulum muna að stærstu fyrirtæki heims voru vart til fyrir 10 árum. Fjórða iðnbyltingin er í fullu fjöri og við Íslendingar eigum og ætlum að vera með í því fjöri. Á síðustu árum hefur okkur tekist að byggja hér upp þekkingariðnað og bæta umgjörð nýsköpunar. Við höfum markað nýsköpunarstefnu. Við höfum stofnað vísissjóðinn Kríu sem auðveldar fjármögnun sprotafyrirtækja, við höfum aukið skattaívilnanir vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum og aukið endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar svo fátt eitt sé nefnd. Þetta skiptir miklu máli og eru raunverulegar aðgerðir til að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.
Búsetu skilyrði, skólar, náttúra og samgöngur
En atvinna er ekki það eina sem skiptir fólk máli þegar það velur sér búsetu. Góðir skólar skipta fjölskyldur miklu máli. Gott aðgengi að náttúru, útivist og ýmiskonar menningarstarfsemi spila líka stórt hlutverk. Það að geta komist á milli staða án teljandi vandkvæða og þurfa ekki að eyða heilu klukkustundunum í bíl fram og til baka eru lífsgæði. Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um svæðisskipulag sem gengur út á að tryggja greiðari samgöngur, betra aðgengi að náttúru og útivist og að hvert og eitt hverfi geti veitt íbúum sínum helstu þjónustu innan hverfisins. Þetta skiptir máli og eykur samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Kársnesið er gott dæmi um þessar áherslur og það verður spennandi að sjá hvernig það hverfi þróast á næstu árum, með brú yfir á háskólasvæðið í Vatnsmýri og öflugum almenningssamgöngum.
Í haust verður kosið til þings mikilvægt er að Sjálfstæðismenn stilli upp öflugum lista sem tryggir góðan árangur flokksins í komandi kosningum. Ég býð fram krafta mína, reynslu og þekkingu.
Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks gefur kost á sér í 2. sæti í komandi prófkjöri flokksins í SV kjördæmi