Norðurslóðir, friðsæl og sjálfbær þróun mála

Birtist í Morgunblaðinu 20. október 2018

Ísland er norðurslóðaríki og við eigum gríðarlegra ríkra hagsmuna að gæta á norðurslóðum það er mikilvægt að þróunin á svæðinu verði friðsæl, sjálfbær og hagfeld fyrir Ísland. Norðurslóðamál er í senn utanríkismál en líka umhverfismál.

Loftlagsógnin, súrnun sjávar

Áhrif loftlagsbreytinga hafa verið áberandi á síðustu misserum. Áhrifin eru hvað skýrust á norðurslóðum þar sem ísinn bráðnar hratt. Nauðsynlegt er að stemma stigu við hlýnun jarðar með því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu. Loflagsbreytingar munu hafa ýmsan kostnað í för með sér bæði mótvægisaðgerðir og aðlögunaraðgerðir svo ekki sé minnst á þann kostnað sem fellst í kaupum á útblástursheimildum ef til þess kæmi. Breytingarnar munu hafa ýmiskonar áhrif sum er hægt að sjá fyrir önnur ekki. Fyrir eyríkið Ísland sem á gríðarlega mikilvæga auðlind í hafinu í kringum okkur þarf sérstaklega að horfa til þeirra áhrifa sem loftlagsbreytingar hafa á hafið. Hafið tekur upp hluta þess koltvísýrings sem losað er og veldur súrnun sjávar. Súrnun sjávar er hraðari á okkar hafsvæði en víðast annar staðar með mögulegum breytingum á lífríki hafsins. Hvaða áhrif hefur súrnun á fiskeldi og sjávarútveg, hvaða breytingar verða á fiskistofnum í kringum landið við hlýnun sjávar?



Tækifæri á Norðurslóðum

Þrátt fyrir mikla ógn loftlagsbreytinga og mikilvægi þess að bregðast við og tryggja að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C þá er ekki síður mikilvægt að aðlagast þeim breytingum sem óhjákvæmilega munu verða. Viðfangsefnið er ekki síst að finna jafnvægið á milli tækifæra og áskorana sem felast í þróun norðurslóða, að nýta auðlindir til hagsbóta fyrir íbúa norðursins án þess að ógna umhverfisgæðum og viðkvæmu vistkerfi norðurslóða. Með bráðnun íss á Norðurskautinu opnast siglingaleiðir sem stytta mjög siglingu milli Asíu og Evrópu með tilheyrandi sparnaði. Með opnun svokallaðar miðleiðar skapast gríðarleg tækifæri fyrir Ísland, meðal annars ef hér yrði byggð upp milliskipahöfn eins og hugmyndir hafa verið uppi á Norðausturlandi. Þjónusta við norðurskautið hvort sem um væri að ræða auðlindanýtingu á svæðinu nú eða vísindarannsóknir getur skapað fjölda beinna og óbeinna starfa hér á landi. Ég vil sjá Ísland vera leiðandi í rannsóknum, nýsköpun og tækniyfirfærslu er lítur að umhverfismálum og norðurslóðamálum. Við höfum nefnilega margt fram að færa á þessu sviði.

Artic Circle – Hringborð norðurslóða

Ráðstefnan sem fram fer í Hörpu nú um helgina er mikilvægt innlegg í umræðuna um norðurslóðir og þróun á svæðisins. Ráðstefna þar sem saman koma vísindamenn, atvinnulíf, stjórnmálamenn, félagsamtök og í raun allir sem áhuga hafa myndar suðurpunkt fyrir umræðu, skoðanaskipti og nýjar hugmyndir. Fyrrverandi forseti okkar Ólafur Ragnar Grímsson á þakkir skyldar fyrir að koma þessum mikilvæga viðburði á laggirnar. Málefni norðurslóða er ekki lengur jaðarmál, heldur mál málanna. Við þurfum að átta okkur á vandanum sem við stöndum frammi fyrir en við þurfum líka að finna leiðir til að bregðast við honum á skapandi hátt og búa þannig til tækifæri fyrir land og þjóð.

Previous
Previous

Nýsköpun og tækniþróun

Next
Next

Mikil uppbygging í Mosfellsbæ