Mikil uppbygging í Mosfellsbæ
Birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2018
Helgafellshverfi er líklega fallegasta byggingarlandið sem til er á höfuðborgarsvæðinu, suðurhlíðar með fallegu útsýni og fjölbreyttri byggð sem saman stendur af tiltölulega þéttum kjarna fjölbýla í miðjunni í kringum glæsilega skólalóð og svo sérbýlum niður að Varmánni, upp með Helgafelli niður að Skammadalslæk.
Skipulag samkvæmt upphaflegum áætlunum.
Skipulag hverfisins er niðurstaða samkeppni um skipulag á meðal fagaðila sem fram fór árið 2005 Skipulag hverfisins var í upphafi samstarf bæjarins og þeirra sem þá áttu landið Helgafellsbygginga. Sú uppbygging sem nú á sér stað byggir á því skipulagi og hafa tiltölulega litlar breytingar verið gerðar á því frá upphafi. Ekkert hefur bæst við í byggingarmagni (það er byggðum fermetrum) þrátt fyrir orðróm þar um. Íbúðum hefur þó verið fjölgað lítillega til að koma til móts við breyttar þarfir og óskir eftir hrun, en upphaflega voru íbúðirnar þarna of stórar að margra mati og því hafa skipulagsyfirvöld einhverjum tilfellum fallist á fjölgun íbúða þannig að íbúðir hafi minnkað og þeim verið fjölgað. Haldið er í fyrri bílastæðakröfur um 2 stæði á hverja íbúð og skal að minnsta kosti annað þeirra vera í bílakjallar. Til að koma til móts við þörf á minni og ódýrari íbúðum höfum við samþykkt ákveðin fjölda minni íbúða 70 fm og undir, en þar er einungis krafa um eitt bílastæði og þarf það ekki að vera neðanjarðar. Jafnframt eru gerðar kröfur um hjólastæði til að ýta undir virka ferðamáta. Með þessu móti teljum við okkur tryggja ákveðna blöndun og fjölbreytni í byggðinni. En það er einlæg skoðun mín að til lengri tíma litið sé mikilvægt að í hverfum sé góð blanda íbúða af mismunandi stærðum bæði í sérbýlum og fjölbýlum.
Ég er sannfærð um að þegar hverfið verði fullbyggt verði það okkur öllum til mikils sóma. Við skipulag hverfisins eins og annara hverfa hefur verið horft sérstaklega til þess að tryggja græn svæði og gott aðgengi að nærliggjandi náttúruperlum eins og Varmánni, Helgafelli og Reykjalundarskógi.
Skólar og leikskólar
Helgafellsskóli er nú í byggingu og mun kennsla hefjast þar í janúar 2019. Um er að ræða glæsilegan skóla sem á endanum mun hýsa bæði leik- og grunnskólabörn. Mikil áhersla hefur verið lögð á góða og algilda hönnun sem geti veitt sem besta umgjörð um það fyrirmyndar skólastarf sem mun fara þar fram. Þegar fram líða stundir er gert ráð fyrir öðrum leikskóla í hverfinu en hverfið mun á endanum hýsa í kringum 1200 íbúðir og þá er oft horft til þess að þörf sé á tveimur leikskólum og einum grunnskóla í hverfi af slíkri stærð.
Fjölbreyttar og góðar samgöngur
Aðal gatnakerfið út úr Helgafellshverfi er í dag frá hringtorgi við Varmá, en á næstu árum mun hverfið jafnframt tengjast Reykjahverfi og nýjum Hafravatnsvegi auk þess sem tenging verður út á Þingvallaveg. þannig er gert ráð fyrir þremur útgönguleiðum út úr hverfinu. Strætó hóf akstur í Helgafellshverfi um síðustu áramót enda mikilvægt að tryggja svo stóru og fjölmennu hverfi góðar almenningssamgöngur. Mikilvægt er að ganga frá göngu- og hjólreiðastígum í hverfinu samhliða frekari uppbyggingu og tryggja þannig fjölbreyttar og góðar samgöngur til framtíðar.